Tímalína prófkjörs á Akureyri

Píratar á Akureyri setja hér fram tímalínu vegna prófkjörs Pírata til sveitarstjórnarkosninga 2018.

Opnað verður fyrir framboð laugardaginn 3. mars n.k. kl. 18:00. Framboðsfresti lýkur þann 10. mars og tekur þá við vika í undirbúning og kynningu á frambjóðendum. Þann 17. mars kl 18:00 hefst kosning og lýkur kl.18.00 þann 24. mars.
Þá viku verða einnig kynningarfundir, en tillhögun kynningarfunda verður kynnt síðar.

Prófkjörsreglur og leiðbeiningar um framboðstilkynningar vegna sveitarstjórnarkosninga 2018 fyrir Akureyri.

Frambjóðendur tilkynna sjálfir framboð inn á þing Pírata á Akureyri í kosningakerfi Pírata á https://x.piratar.is.

Til þess að tilkynna framboð á kosningakerfinu þarf að:
Vera skráð/ur í Pírata.
Vera skráð/ur í kosningakerfi Pírata sem notandi.
Fara í liðinn kosningar og þar: Akureyri – Sveitarstjórnarkosningar – Prófkjör 2018
Smella á „Tilkynna framboð“ hnappinn.
Sértu ekki skráð/ur í kosningakerfið þá geturðu haft samband við viðkomandi aðildarfélag eða framkvaemdastjori@piratar.is til þess að fá aðstoð en hægt er að sjá leiðbeiningar til þess að nýskrá sig í kosningakerfið hér: https://youtu.be/4CsgGmTTBFI

Jafnframt þarf að skila inn formlegri framboðstilkynningu til aðildarfélags Pírata á Akureyri með því að senda póst á akureyri@piratar.is

Þau sem hafa í hyggju að tilkynna framboð skulu kynna sér eftirfarandi prófkjörsreglur þar sem fram kemur hvaða upplýsingum bera að skila við framboðstilkynningu til aðildarfélaga.
Einungis skráðir Píratar á Akureyri hafa kosningarétt og þarf skráning að hafa borist fyrir 10. mars 2018 kl 18:00. Skráning er á piratar.is undir flipanum “taka þátt” og skal velja þar undir svæðisbundna aðildarfélagið: Píratar á Akureyri.

Prófkjörsreglur fyrir sveitarstjórnarkosningar 2018

Að öllu jöfnu verður gert ráð fyrir að frambjóðandi vilji efsta mögulega sæti miðað við niðurstöðu prófkjörs.

Reglur um prófkjör Pírata fyrir sveitarstjórnarkosningar 2018 og skyldur frambjóðenda í prófkjöri Pírata á Akureyri

Frambjóðandi skal vera skráður í Pírata.
Frambjóðandi skal vera kjörgengur samkvæmt 3.gr.laga um kosningar til sveitarstjórna nr.5/1998.
Frambjóðandi skal tilkynna framboð með tölvupósti til ábyrgðaraðila prófkjörs á akureyri@piratar.is en þar skal koma fram: Nafn frambjóðanda, kennitala, staða eða starfsheiti og heimili, sem skila þarf með framboðinu svo það sé löglegt.
Einnig skal fylgja símanúmer og tölvupóstur þar sem framkvæmdaraðilar prófkjörs og kosninga geta náð í viðkomandi. Mynd og skjal með kynningartexta (sem verður notaður á kynningarvefsíðu) skal einnig fylgja.
Frambjóðandi skráir sig einnig í prófkjörið á viðeigandi undirþingi í kosningakerfi Pírata á x.piratar.is. Lokadagsetning skráningar er 10. mars 2018 kl 18:00.
Kosning hefst laugardaginn 17. mars 2018 kl.18.00 og lýkur klukkan 18:00 þann 24. mars 2018.

Siðareglur framboðsins

  • Frambjóðendur í prófkjöri sýna öðrum frambjóðendum kurteisi og virðingu og koma fram af háttvísi, bæði í ræðu og riti.
  • Frambjóðendur gera grein fyrir öllum þeim hagsmunum sem gætu skipt máli við framboðið.
  • Frambjóðandi þarf að gera sér grein fyrir að lífshlaupið gæti lent undir smásjá andstæðinga með þeim hætti að fortíð sé dregin upp í þeim tilgangi að rýra möguleika flokksins. Það er betra bæði fyrir frambjóðandann og flokkinn ef þau atriði eru þekkt fyrirfram og hægt að stjórna hvernig þau eru kynnt. Kosningastjórn vinnur úr slíkum upplýsingum í fullum trúnaði og að höfðu samráði við frambjóðanda. Með framboðsskráningu samþykkir frambjóðandi að hann hafi kynnt sér eftirfarandi kvaðir sem fylgi framboðinu og samþykki þær

Frambjóðandi samþykkir með undirskrift endanlegt sæti á lista og gefur hann einnig samþykki fyrir umboðsmönnum listans. Þetta skal gert eigi síður en 4 dögum áður en frestur til að skila listanum rennur út, ellegar er heimilt að fella frambjóðanda af lista.
Framboðslistum verður raðað samkvæmt úrslitum forgangskosningar með Schulze-aðferð eftir kosningu í kosningakerfi Pírata. Þó skal frambjóðendum heimilt að víkja sæti og taka lægra sæti á lista en kjör hans segir til um, og færast þá aðrir frambjóðendur ofar á lista með einfaldri færslu. Hafni frambjóðandi sæti eða verði ófær um að taka því skal samkvæmt lögum Pírata endurtelja atkvæði að þeim atkvæðum brottfelldum sem voru greidd viðkomandi frambjóðanda.
Ef kemur í ljós að frambjóðandi er ekki kjörgengur er heimilt að víkja honum af lista svo listinn sé löglegur.

Vinsamleg tilmæli til frambjóðenda í prófkjöri

1. Frambjóðendur eru eindregið hvattir til að bjóða sig ekki fram nema þeir hafi fullan hug á að taka sæti á lista, jafnvel neðar en þeir hefðu óskað sér, sökum þeirrar vinnu og óvissu sem það getur skapað að hafna sæti. Jafnframt er þeim tilmælum eindregið beint til frambjóðenda að lækka sig frekar en segja sig af lista, geti þeir ekki hugsað sér að vera í því sæti sem þeim býðst.

2. Til að draga úr vinnu við endurútreikninga er mælst til þess að frambjóðendur tilkynni fyrirfram (með tölvupósti á ábyrgðaraðila prófkjörs), eftirfarandi:
a. Hámarkssæti sem frambjóðandi vill þiggja og lækka sig í ef hann lendir ofar.
b. Lægsta sæti sem frambjóðandi myndi taka.
1. Frambjóðendur eru hvattir til að svara eftirfarandi spurningum og birta svörin á framboðssíðunni sinni á x.piratar.is:
a. Hvers vegna vilt þú bjóða þig fram fyrir Pírata, umfram annað?
b. Hvað telur þú að þú hafir til brunns að bera sem geri þig að góðum kosti til að vera sveitarstjórnarfulltrúi fyrir Pírata?
c. Úr grunnstefnu Pírata, hvaða grein eða greinar telur þú að lýsi vel áherslum þínum sem tilvonandi sveitarstjórnarfulltrúa og/eða fulltrúa í ráð/stjórn á vegum sveitarfélagsins?

Birt með fyrirvara um breytingar.

Brenni einhverjar spurningar á þér getur þú sent tölvupóst á aðildarfélag Pírata á Akureyri eða á framkvaemdastjori@piratar.is.

Píratakveðjur,
Kosningaráð Pírata á Akureyri.

Fleiri fréttir

Viðburðardagatal

Mest lesið