Píratar leggja fram grænan sáttmála

Í gær lagði Smári McCarthy, þingmaður Pírata, fram þingsályktunartillögu að grænum sáttmála ásamt þingflokki Pírata. Er þar lagt til að framtíðarnefnd forsætisráðherra móti tillögur að frumvörpum og þingsályktunartillögum fyrir forsætisráðherra sem verði leiðarvísir ríkisstjórnarinnar að fullu kolefnishlutleysi allra sviða íslensks þjóðfélags. Tillögurnar munu einnig ná til alþjóðlegs samstarfs Íslands að því marki að ná hlutfalli koltvísýrings í andrúmsloftinu undir 300 hluta af milljón á jörðinni á 21. öldinni.

Samkvæmt tillögunni þarf að ná fjölmörgum markmiðum fyrir árið 2030, svo sem að útblástur koltvísýrings á Íslandi verði í jafnvægi við bindingu koltvísýrings, að efnahagsleg framtíð landsins verði tryggð á sjálfbæran máta, aðgangur að hreinu vatni og matvælum verði tryggður sem og jöfn tækifæri fyrir komandi kynslóðir og að fjárfest verði í innviðum og uppbyggingu svo markmið græna sáttmálans nái fram að ganga.

Flutningsmenn tillögunnar telja að framtíðarnefnd forsætisráðherra sé besti vettvangur stjórnmálanna til að ræða þær aðgerðir sem þarf að grípa til. Þar eiga allir flokkar á þingi fulltrúa og einnig hægara um vik að ræða áskoranir og lausnir sem munu teygja sig yfir fjölmörg kjörtímabil.

Stuttu eftir að þingsályktunartillaga Pírata var lögð fram lagði þingflokkur Samfylkingar fram þingsályktun sem einnig fjallar um grænan samfélagssáttmála. Píratar fagna þessu framtaki Samfylkingarinnar og er ánægjulegt að sjá að komnir eru fram að minnsta kosti tveir stjórnmálaflokkar sem taka yfirstandandi loftslagsvá alvarlega.

Fleiri fréttir

Viðburðardagatal

Mest lesið