Lýðræðislegasta stjórnarskrárstarf í Íslandssögunni

Lýðræðislegasta stjórnarskrárstarf í Íslandssögunni

Frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, lýsir stjórnarskrárstarfinu sem hófst á Þjóðfundinum 2010 sem: „Víðfeðmasta og lýðræðislegasta starf að stjórnarskrárritun sem sagan kann frá að greina.“

Eina leiðin til að vera fullviss um réttmæti orða Vigdísar er að bera saman hvernig stjórnarskránni hefur alla jafna verið breytt hér á landi við starfið sem var unnið frá 2010 til 2013.

Það er lýðræðislegra að halda þjóðfund um endurskoðun stjórnarskrárinnar og spyrja 950 manna hóp kjósenda, valinn af handahófi til að endurspegla þverskurð þjóðarinnar, hvaða breytingar þau vilja helst á stjórnarskránni – venjulega eru það fáir ráðamenn sem ákveða hverju skuli breyta.

Það er lýðræðislegra að þingið skipi stjórnarskrárnefnd til að taka saman niðurstöður almennings á þjóðfundi – frekar en að ráðherra skipi nefnd til að útfæra tillögur ráðamanna um breytingar á stjórnlögum um völd ráðamanna.

Það er lýðræðislegra þegar þjóðarkjör Stjórnlagaþings var ógilt í Hæstarétti að Alþingi skipaði Stjórnlagaráð sem starfaði á opnum fundum og tók við ábendingum almennings – í stað þess að gera bara eins og venjulega og láta nefnd ráðherra skrifa í leyni leikreglur fyrir stjórnmálamenn.

Það er lýðræðislegra að spyrja kjósendur í ráðgefandi þjóðar­atkvæðagreiðslu hvort þeir vilja „nýja stjórnarskrá“ „grundvallaða á frumvarpi Stjórnlagaráðs“ – en að spyrja kjósendur alls ekki, eins og venjulega.

Það er gríðarlega ólýðræðislegt að minnihluti þingmanna, fulltrúar minnihluta kjósenda, beiti málþófi til að stöðva vinnu við lýðræðislegustu endurskoðun stjórnarskrárinnar í lýðveldissögu landsins í stað þess að leyfa kjósendum í Alþingiskosningum og svo í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu að ráða hvort þeir vilji nýju stjórnarskrána.

Stjórnarskrárstarf getur verið lýðræðislegra en vinnan frá 2010 til 2013. En fyrir utan málþóf þingmanna minnihluta kjósenda er stjórnarskrárstarfið sem hófst á þjóðfundinum 2010 það lýðræðislegasta í Íslandssögunni.

Það er kominn tími til að Alþingi klári sinn hluta stjórnarskrárstarfsins sem þjóðin hóf á þjóðfundinum. Forseti Íslands getur svo sett nýja stjórnarskrá í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu, sé það krafa kjósenda. Þjóðin er, og á að fá að vera, stjórnarskrárgjafinn.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 7. október 2020

Senda inn grein