„Housing First“ í Reykjavík

Á fundi borgarráðs Reykjavíkurborgar í gær fór fram kynning á tilraunaverkefni velferðarsviðs sem byggist á hugmyndafræðinni „Housing First“ eða húsnæði fyrir utangarðsfólk án kvaða. Aðferðafræðin er í fullu samræmi við stefnu Pírata í Reykjavík í velferðar- og forvarnamálum, en þar segir að þeir sem eigi hvergi höfði að halla skuli njóta þeirra mannréttinda að fá þak yfir höfuð án kvaða.

Af þessu tilefni sammæltist borgarráð um eftirfarandi bókun, og með því má segja að þverpólitísk samstaða sé að myndast um þessa aðferðafræði í borginni.

Borgarráð fagnar því að ráðist verði í tveggja ára tilraunaverkefni sem byggir á hugmyndafræðinni „Housing First“ með því að fjórar félagslegar leiguíbúðir fari í sértæka úthlutun til utangarðsfólks. Íbúar munu njóta stuðnings frá sérstöku vettvangs- og ráðgjafarteymi í málefnum utangarðsfólks. Hugmyndafræði „Housing First“ byggist á því að öruggt húsnæði sé forsenda þess að hægt sé að vinna með vanda einstaklinga, s.s. vímuefnavanda. Áhersla er lögð á að koma húsnæðislausu fólki í skjól án þess að gera kröfu um að viðkomandi hafi lokið vímuefnameðferð. Þjónusta í anda „Housing First“ hefur sjónarmið skaðaminnkunar að leiðarljósi. Í þeim löndum þar sem „Housing First“ hefur verið sett á laggirnar hefur heimilisleysi dregist saman. Auk þess sýna bandarískar rannsóknir að aðferðin virkar. Tilraunaverkefninu er ætlað að auka við þá fjölbreytni sem þarf að vera til staðar í búsetuúrræðum. Borgarráð telur mikilvægt að samhliða þessu sé unnið að uppbyggingu fjölbreyttra búsetukosta fyrir fólk sem telst utangarðs í Reykjavík.

Fleiri fréttir

Viðburðardagatal

Mest lesið