Ahoy! Píratar auglýsa eftir frambjóðendum í framkvæmdaráð!

Heil og sæl kæru Píratar!

Leitin að framtakssömum og framkvæmdaglöðum Pírötum til þess að taka sæti í framkvæmdaráði flokksins er hafin!

Ertu nett skipulagsfrík? Góð/ur í reiknikúnstum, ritarastörfum, viðburðastjórnun eða tæknimálum? Ertu klár í fundarsköpum eða fundarstjórnun? Finnst þér gaman að félagsstarfi í fjölbreyttum félagsskap? Býrð þú yfir alls konar hæfileikum sem nýst geta flokknum á þessum tímamótum? Þá er ráð að bjóða sig fram í framkvæmdaráð og taka þátt í að efla innra starf flokksins.

Píratar af öllum gerðum og stærðum eru hvattir til þess að bjóða sig fram í þetta fjölbreytta og gefandi sjálfboðastarf. Framkvæmdaráð Pírata samanstendur af sjö aðalmönnum og sjö varamönnum sem saman fara með almenna stjórn og rekstur félagsins. Framkvæmdaráð fer með fjármuni flokksins, hugar að húsnæðismálum og starfsmannamálum og sinnir fjölbreyttum verkefnum er snúa að innra starfi flokksins. Ráðið hefur ekki stefnumótunarvald þó einstaklingum innan þess sé áfram frjálst að taka þátt í stefnumótun flokksins sem almennir félagsmenn.

Meðlimir framkvæmdaráðs verða kjörnir á aðalfundi Pírata sem haldinn verður 11. og 12. júní næstkomandi. Fimm aðalmenn og fimm varamenn eru kosnir skv. forgangskosningu. Auk þessu er tveir aðalmenn og tveir varamenn slembivaldir og koma viðstaddir fundargestir til greina við það val.

Hafir þú áhuga á að sinna þessu mikilvæga starfi fyrir flokkinn þá er framboðsfrestur til setu í framkvæmdaráði til klukkan 11 að morgni 28. maí 2016. Til þess að bjóða sig fram þarf að senda tilkynningu um framboð ásamt hagsmunaskráningu á framkvæmdastjóra Pírata á póstfangið bylgja@piratar.isáður en framboðsfrestur rennur út. Í hagsmunaskráningu ber frambjóðendum að gera grein fyrir þeim trúnaðarstörfum sem frambjóðandi gegnir utan og innan flokksins ásamt öðrum högum sínum sem valdið gætu hagsmunaárekstri í starfinu. Hagsmunaskráningar verða birtar á vefsíðu félagsins sbr. grein 4.15. í lögum Pírata.

Að loknum framboðsfresti fá frambjóðendur upplýsingar og leiðbeiningar um hvernig staðið verður að kynningu á frambjóðendum. Áhugasamir sem vilja forvitnast frekar um hvað felst í setu í framkvæmdaráði geta haft samband við formann framkvæmdaráðs, Olgu Margréti Cilia á póstfangið olga@piratar.is.

Við hlökkum til að sjá ykkur á aðalfundinum!

Framkvæmdaráð Pírata
framkvaemdarad@piratar.is

Fleiri fréttir

Viðburðardagatal

Mest lesið