Áhöfn óskast í undirbúning prófkjöra á höfuðborgarsvæðinu!

Stjórnir Pírata á höfuðborgarsvæðinu auglýsa eftir sjálfboðaliðum til að aðstoða við undirbúning prófkjörs.

Félög Pírata í Reykjavík og Pírata í Suðvesturkjördæmi hafa sammælst um samvinnu í prófkjörum kjördæmanna. Því eru öll þau sem vilja hjálpa til með prófkjörin á höfuðborgarsvæðinu beðin um að senda fullt nafn, símanúmer og tölvupóstfang á reykjavik@piratar.is. Þetta gildir hvort sem viðkomandi býr í Reykjavík eða í Suðvesturkjördæmi. Í framhaldi af því verður sjálfboðaliðum komið í samband við einstaklinga innan þess kjördæmis sem þeir geta aðstoðað hvað mest.

Athugið að þeir sem bjóða sig fram mega ekki sjálfir stefna á prófkjör. Sú krafa er þó ekki lagalegs eðlis heldur siðferðislegs.

Um er að ræða tvo hópa sem hafa mismunandi hlutverk. Þau eru eftirfarandi:

Framboðshópur.

  • Hlutverk hans er söfnun og utanumhald á framboðum til prófkjöra í Reykjavíkurkjördæmum fyrir komandi Alþingiskosningar.
  • Í þeim hópi þurfa að vera a.m.k. sex aðilar, sem taka á móti framboðum, ganga úr skugga um að nauðsynlegar upplýsingar fylgi, leiðbeina og aðstoða frambjóðendur með kynningarmál og annað sem þarf til að prófkjörið fari rétt fram.

 
Vefteymi.

  • Hlutverk hópsins er að aðstoða félagsfólk við að skrá sig í kosningakerfi Pírata, bæði í aðalfélagið og í rétt undirfélag. Þessi hópur þarf að vera hreyfanlegur á milli hverfa á höfuðborgarsvæðinu til að ná til allra þeirra sem þurfa aðstoð við skráningar.
  • A.m.k. fjóra aðila þarf í þennan hóp.

 
Þeir aðilar sem taka að sér þessa vinnu munu fá það fjármagn sem nauðsynlegt er til að sinna henni vel, sem og þá upplýsingaþjálfun sem þörf er á til að sinna hlutverkum sínum.
Gera má ráð fyrir að þegar farið verður í undirskriftasafnanir verði einnig leitað til þessara hópa eftir aðstoð.

Við hvetjum fólk eindregið til að taka þátt í undirbúningi prófkjöra og minnum á að margar hendur vinna létt verk auk þess að gleðin er ávallt ríkjandi í innra starfi Pírata.

Opið verður fyrir skráningar til miðvikudagsins 1. júní.

Kærar kveðjur
Stjórnir PíR og PíSuv

Fleiri fréttir

Viðburðardagatal

Mest lesið